Katrín af Medici Efnisyfirlit Æska Katrínar | Krónprinsessa og drottning | Ekkjudrottning | Bartólómeusarvígin | Stjórnartíð Hinriks 3. | Eftirmæli | Börn Katrínar | Heimild | Leiðsagnarval
Fólk fætt árið 1519Fólk dáið árið 1589Drottningar FrakklandsÍtalskt aðalsfólkMedici-ættRíkisstjórar Frakklands
13. apríl15195. janúar1589FrakklandsHinriks 2.Frans 2.Karls 9.Hinriks 3.Hinriks 4.Filippusar 2.FlórensÍtalíuLorenzos 2.sárasóttLeós XKlemens VIIMedici-ættar1527gíslingu12. ágúst1530Karls 5. keisaraRómarFrans 1.HinrikMarseille28. október15331534Páll III1547Diane de Poitiersburtreiðum1559borgarastyrjaldar1562húgenottarFrönsku trúarbragðastyrjaldirnar15981563vopnahlé1567HinrikNavarraMargréti19. ágúst1572ParísGaspard de ColignyBartólómeusarvíginFrans hertogi af Anjou1588Kaþólska bandalagsins23. desemberTuileries-höll1544-1556hryggskekkjuherðakistilklumbufót
Katrín af Medici
Jump to navigation
Jump to search
Katrín af Medici (13. apríl 1519 – 5. janúar 1589) eða Caterina Maria Romula di Lorenzo de' Medici var drottning Frakklands á 16. öld, kona Hinriks 2. Frakkakonungs og móðir Frakkkakonunganna Frans 2., Karls 9. og Hinriks 3., tengdamóðir Hinriks 4. og einnig tengdamóðir Filippusar 2. Spánarkonungs. Hún hélt í raun um stjórnartaumana í Frakklandi í nærri 30 ár og hafði mjög mikil áhrif á stjórnmál og listir í Frakklandi.
Efnisyfirlit
1 Æska Katrínar
2 Krónprinsessa og drottning
3 Ekkjudrottning
4 Bartólómeusarvígin
5 Stjórnartíð Hinriks 3.
6 Eftirmæli
7 Börn Katrínar
8 Heimild
Æska Katrínar |
Katrín var fædd í Flórens á Ítalíu, dóttir Lorenzos 2. af Medici, hertoga af Urbino, og Madeleine de La Tour d'Auvergne. Móðir hennar dó hálfum mánuði eftir fæðinguna og faðir hennar lést 4. maí, sennilega úr sárasótt, svo að Katrín varð munaðarlaus þriggja vikna gömul. Hún ólst upp hjá ættingjum í Flórens, undir verndarvæng frænda sinna, páfanna Leós X og Klemens VII. Þegar andstæðingar Medici-ættar boluðu ættinni frá völdum 1527 tóku þeir Katrínu í gíslingu og var hún höfð í haldi í nunnuklaustrum í borginni til 12. ágúst 1530, þegar her Karls 5. keisara tók Flórens eftir langt umsátur. Á meðan umsátrið varði hafði Katrín stundum verið sett upp á asna sem var teymdur gegnum borgina henni til háðungar.
Klemens páfi kallaði nú Katrínu til Rómar og hófst handa við að finna henni eiginmann. Það torveldaði leitina að hún var ekki háaðalborin; Medici-ættin var nýrík og faðir hennar hafði verið gerður hertogi af Leó páfa frænda sínum. Hún hafði hins vegar erft mikið fé eftir foreldra sína og Klemens páfi hét hárri fjárhæð í heimanmund. Frans 1. Frakkakonungur bauð fram næstelsta son sinn, Hinrik hertoga af Orléans, og voru þau Katrín gefin saman í Marseille 28. október 1533, þá bæði 14 ára. Sagt var að Frans konungur hefði ekki yfirgefið svefnherbergi þeirra á brúðkaupsnóttina fyrr en hann var viss um að hjónabandið hefði verið fullkomnað. Katrín var í miklum metum við frönsku hirðina fyrsta hjónabandsárið en þegar Klemens páfi dó haustið 1534 og eftirmaður hans, Páll III, neitaði að greiða heimanmundinn, dró úr vinsældum hennar.
Krónprinsessa og drottning |
Tveimur árum síðar varð Hinrik krónprins þegar bróðir hans dó og þótti ýmsum þá hafa tekist illa til við val á framtíðardrottningu Frakklands þar sem hún var ekki konungborin, færði ekki þann auð í búið sem lofað hafði verið og virtist auk þess vera óbyrja því tíu ár liðu þar til hún ól fyrsta barnið. Enginn vafi lék aftur á móti á um frjósemi eiginmanns hennar, sem átti margar hjákonur. Ýmsir ráðgjafar hans hvöttu hann til að skilja við Katrínu til að tryggja ríkiserfðirnar. Hún greip til alls konar ráða til að reyna að verða þunguð en það er sagt að kynlífsráðgjöf læknisins Jean Fernel hafi loks leyst vandamálið og 20. janúar 1544 fæddi hún son og á næstu tólf árum níu börn til viðbótar.
Frans 1. dó 1547 og þá tók Hinrik við og Katrín varð drottning. Hinrik leyfði henni þó ekki að taka neinn þátt í stjórnsýslunni og virti hana lítils en var undir miklum áhrifum frá helstu ástmey sinni, Diane de Poitiers. Katrín hefndi sín þegar Hinrik varð fyrir slysi í burtreiðum 1559 sem dró hann til dauða. Þá neitaði hún að senda eftir Diane þótt konungur bæði um það hvað eftir annað. Eftir lát konungs rak hún svo Diane í útlegð.
Ekkjudrottning |
Elsti sonur þeirra, Frans 2., var þá fimmtán ára og heilsuveill. Móðir hans hélt um stjórnvölinn í raun og þegar hann lést ári síðar stýrði hún ríkinu fyrir Karl 9., sem þá var aðeins níu ára. Hún var þó í raun aldrei einvaldur í Frakklandi því landið var á barmi borgarastyrjaldar og víða höfðu aðalsmenn undirtökin og réðu meiru en konungsvaldið. Árið 1562 gaf Katrín út Saint-Germain-tilskipunina, þar sem húgenottar voru í fyrsta skipti formlega viðurkenndir og leyft að stunda trú sína á laun. Við þetta var þó mikil andstaða og upp úr þessu hófust Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar sem stóðu með hléum til 1598.
Katrín reyndi að miðla málum og halda friðinn og 1563 var gert vopnahlé sem stóð til 1567. Þótt Karl 9. væri lýstur lögráða og tæki að nafninu til við völdum 1563 hafði hann lítinn áhuga á að stýra landinu og Katrín hélt áfram um stjórnartaumana. Hún vildi efla tengsl krúnunnar við þegnanna og hélt því ásamt konunginum og hirðinni í ferðalag um Frakkland sem stóð frá því í janúar 1564 fram í maí 1565.
Bartólómeusarvígin |
Vopnahlé var gert að nýju árið 1570 og hluti af vopnahléssamkomulaginu var að Hinrik, krónprins Navarra og einn af helstu leiðtogum húgenotta, skyldi giftast Margréti, yngstu dóttur Katrínar sem upp komst. Hinrik var jafnframt sá sem stóð næstur til að erfa frönsku krúnuna ef engum af sonum Katrínar yrði sonar auðið.
Brúðkaup þeirra Margrétar og Hinriks var þó ekki haldið fyrr en 19. ágúst 1572 en þá var Hinrik orðinn konungur Navarra. Mikil veisluhöld voru í París vegna brúðkaupsins og komu þangað margir aðalsmenn úr röðum húgenotta, þar á meðal Gaspard de Coligny aðmíráll, helsti herforingi þeirra. Þremur dögum eftir brúðkaupið var honum sýnt banatilræði og hafa ýmsir verið nefndir sem líklegir til að hafa staðið að baki því, þar á meðal Katrín, en sagt er að hún hafi haft áhyggjur af því hve mikil áhrif Coligny var farinn að hafa á konunginn.
Í framhaldi af þessu ákváðu mæðginin að losa sig við þá leiðtoga húgenotta sem voru staddir í París og koma þar með í veg fyrir að þeir gerðu uppreisn vegna tilræðisins við Coligny. Í kjölfarið fylgdu skipuleg morð á húgenottum í París, framin bæði af hermönnum og af múg sem fór um og myrti þá sem höndum var komið yfir og hafa þessir atburðir verið kallaðir Bartólómeusarvígin. Hinrik af Navarra slapp naumlega með hjálp konu sinnar og neyddist til að snúast til kaþólskrar trúar.
Stjórnartíð Hinriks 3. |
Tveimur árum síðar dó Karl konungur, sem hafði aldrei verið heilsuhraustur, aðeins 23 ára að aldri. Á banabeði útnefndi hann móður sína ríkisstjóra þar sem ríkisarfinn, Hinrik bróðir hans, var í Póllandi og hafði skömmu áður verið tekinn þar til konungs. Hinrik sneri svo heim og tók við ríkjum sem Hinrik 3.
Hann var í uppáhaldi hjá móður sinni og öfugt við bræður sína var hann fullorðinn maður þegar hann varð konungur. Hann hafði þó takmarkaðan áhuga á að stýra ríkinu og Katrín hélt því völdum sínum að nokkru leyti en gat þó ekki stjórnað Hinrik á sama hátt og Frans og Karli. Hún varð eins konar framkvæmdastjóri, sáttasemjar og sendifulltrúi konungs og ferðaðist víða um landið til að reyna að efla frið. Tæplega sextug að aldri hélt hún í átján mánaða ferðalag um sunnanvert Frakklands til að ræða við leiðtoga Húgenotta. Með þessu og fleiru ávann hún sér smátt og smátt nokkra virðingu þjóðarinnar, sem löngum hafði haft litlar mætur á ekkjudrottningunni, og var henni vel fagnað þegar hún sneri aftur til Parísar.
Friðarhorfur jukust þó lítið þrátt fyrir þetta. Hinrik var kvæntur en hjónabandið var barnlaust. Árið 1584 dó yngsti sonur Katrínar, Frans hertogi af Anjou, og þar sem hann var barnlaus var ljóst að eftir dauða Hinriks yrði það húgenottinn Hinrik af Navarra, tengdasonur Katrínar, sem settist í hásætið. Þetta olli nýrri ólgu meðal kaþólikka og 1588 neyddist Hinrik til að undirrita yfirlýsingu þar sem látið var undan öllum kröfum Kaþólska bandalagsins og Hinrik af Navarra sviptur erfðarétti. Í framhaldi af því svipti hann Katrínu móður sína öllum völdum. 23. desember sama ár leiddi hann hertogann og kardínálann af Guise, helstu leiðtoga Kaþólska bandalagsins, í gildru og lét drepa þá en um það vissi móðir hans ekkert fyrr en eftir á. Hún tók þennan atburð mjög nærri sér og var sagt að það hefði leitt til þess að hún dó tæpum tveimur vikum síðar, 5. janúar 1589.
Eftirmæli |
Katrín af Medici hefur fengið misjöfn eftirmæli. Óumdeilt er að í tæp þrjátíu ár hélt hún í raun um stjórnartaumana í Frakklandi að því marki sem hægt er að stjórna landi þar sem skiptast á blóðugar borgarastyrjaldir og mikil spenna og hatur milli trúarhreyfinga og aðalsætta. Hún sveifst einskis til að reyna að halda sonum sínum á konungsstóli og er talið ólíklegt að þeir hefðu enst lengi án hennar.
Katrín var mikill listunnandi. Hún safnaði málverkum og öðrum listaverkum, styrkti listamenn úr ýmsum greinum og eyddi háum fjárhæðum í listir. Mestan áhuga hafði hún þó á byggingarlist og lét reisa ýmsar hallir og önnur mannvirki, þar á meðal Tuileries-höll í París. Mörgum þeirra var þó aldrei lokið og fátt stendur eftir í dag.
Börn Katrínar |
Sem fyrr segir ól Katrín tíu börn á árunum 1544-1556. Yngstar voru tvíburastúlkur og fæddist önnur andvana en hin dó í vöggu. Einn sonur Katrínar dó einnig á fyrsta ári en af hinum sjö voru aðeins tvö lifandi, Hinrik, sem var drepinn sjö mánuðum eftir lát móður sinnar og Margrét, sem ein systkina sinna var heilsuhraust og komst á sjötugsaldur. Sum barna Katrínar voru með slæma hryggskekkju eða herðakistil og Claude var með klumbufót. Varla er því hægt að segja að Katrín hafi búið við mikið barnalán. Börn Katrínar af Medici og Hinriks 2. sem komust á legg voru:
Frans 2. Frakkakonungur (19. janúar 1544 – 5. desember 1560), giftist Maríu Skotadrottningu árið 1558, dó 16 ára, úr ígerð í heila út frá eyrnabólgu. Barnlaus.
Elísabet Spánardrottning (2. apríl 1545 – 5. október 1568), giftist Filippusi 2. Spánarkonungi 1559, dó af barnsförum 23 ára.
Claude, hertogaynja af Lorraine (12. nóvember 1547 – 21. febrúar 1575), giftist Karli 3. hertoga af Lorraine, dó af barnsförum 27 ára, þegar hún ól níunda barn sitt.
Karl 9. Frakkakonungur (27. júní 1549 – 30. maí 1574), giftist Elísabetu af Austurríki 1570, barnlaus. Dó 23 ára, líklega úr berklum.
Hinrik 3. Frakkakonungur (19. september 1551 – 2. ágúst 1589), giftist Lovísu af Lorraine 1574, barnlaus. Drepinn af launmorðingja, 37 ára.
Margrét, drottning Navarra og Frakklands (14. maí 1553 – 27. mars 1615), giftist Hinrik 4. 1572 en hjónabandið var ógilt 1599. Barnlaus.
Frans hertogi af Anjou (18. mars 1555 – 19. júní 1584), ókvæntur og barnlaus, dó úr malaríu 29 ára.
Heimild |
- Fyrirmynd greinarinnar var „Catherine de' Medici“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 1. ágúst 2010.
Flokkar:
- Fólk fætt árið 1519
- Fólk dáið árið 1589
- Drottningar Frakklands
- Ítalskt aðalsfólk
- Medici-ætt
- Ríkisstjórar Frakklands
(window.RLQ=window.RLQ||[]).push(function()mw.config.set("wgPageParseReport":"limitreport":"cputime":"0.064","walltime":"0.083","ppvisitednodes":"value":129,"limit":1000000,"ppgeneratednodes":"value":0,"limit":1500000,"postexpandincludesize":"value":306,"limit":2097152,"templateargumentsize":"value":64,"limit":2097152,"expansiondepth":"value":4,"limit":40,"expensivefunctioncount":"value":0,"limit":500,"unstrip-depth":"value":0,"limit":20,"unstrip-size":"value":0,"limit":5000000,"entityaccesscount":"value":0,"limit":400,"timingprofile":["100.00% 6.744 1 -total"," 59.83% 4.035 1 Snið:Wpheimild"," 38.88% 2.622 1 Snið:Fd"],"cachereport":"origin":"mw1341","timestamp":"20190403093636","ttl":2592000,"transientcontent":false););"@context":"https://schema.org","@type":"Article","name":"Katru00edn af Medici","url":"https://is.wikipedia.org/wiki/Katr%C3%ADn_af_Medici","sameAs":"http://www.wikidata.org/entity/Q131552","mainEntity":"http://www.wikidata.org/entity/Q131552","author":"@type":"Organization","name":"Contributors to Wikimedia projects","publisher":"@type":"Organization","name":"Wikimedia Foundation, Inc.","logo":"@type":"ImageObject","url":"https://www.wikimedia.org/static/images/wmf-hor-googpub.png","datePublished":"2010-08-01T17:58:35Z","dateModified":"2019-02-06T11:34:57Z","image":"https://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/d/d3/KatharinavonMedici.jpg"(window.RLQ=window.RLQ||[]).push(function()mw.config.set("wgBackendResponseTime":143,"wgHostname":"mw1273"););